Um okkur...

Harla hóf starfsemi á Akureyri 3. janúar 2005. Stofnandi og eini fasti starfsmaðurinn er Haraldur Ingólfsson. Hann fæddist í Stykkishólmi 28. júní 1963 og ólst upp í Straumfjarðartungu í Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Haraldur hefur margra ára reynslu af því að lesa og skrifa. Hann starfaði sem lausamaður hjá Íþróttablaðinu 1992-1993, prófarkalesari og blaðamaður á Degi 1997-2000, fréttamaður/fréttastjóri á sjónvarpsstöðinni Aksjón á Akureyri 2000-2001, síðan útvarpsmaður í hlutastarfi í nokkra mánuði á Ljósvakanum og 2002-2004 starfaði hann við fjölbreytt texta- og kynningarverkefni hjá kynningarþjónustu á Akureyri.

Haraldur lauk grunnskólaprófi frá Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi 1979, verslunarprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1982, stúdentsprófi frá Samvinnuskólanum 1985 (framhaldsdeild skólans í Reykjavík) og BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands 1996. Lokaritgerð Haralds til BA-prófs fjallaði um heimspeki Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi eins og hún birtist í bókinni Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna (1912)Að útskrift lokinni sá Haraldur um endurútgáfu ritsins í samstarfi við Heimspekistofnun og Hið íslenska bókmenntafélag og nýtti þá ritgerðina sem stofn að inngangi að ritinu.